Skip to content

Birta stoðdeild Álftamýrarskóla er skólaúrræði  fyrir börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þegar Reykjavíkurborg hefur tekið á móti fjölskyldum sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd og eru með börn á skólaaldri er það hlutverk málastjóra hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða að senda inn umsókn um skólavist fyrir þau börn í stoðdeildina Birtu.

Í Birtu er því tekið á móti nemendum eins fljótt og kostur er, eftir að þeir hafa komið til landsins og Reykjavíkurborg hefur tekið á móti þeim.

Stór hluti þessara barna hafa mjög skerta skólagöngu og hafa lifað við mikið óöryggi í langan tíma.  Hlutverk Birtu stoðdeildar er því veita nemendum og foreldrum þeirra aðeins meira utan um hald en þau myndu fá ef þau færu beint inn í hefðbundinn bekk.  Hlutverk Birtu er að undirbúa nemendur fyrir hefðbundna skólagöngu með markvissri íslensku kennslu, stærðfræðikennslu og  ensku kennslu auk samfélagsfræðslu og lífsleikni. Í samvinnu við Háaleitisskóla /Álftamýri er nemendum Birtu fljótlega boðið að taka þátt í hefðbundinni íþróttakennslu og verk og listgreinakennslu með sínum jafnöldrum.  Um leið og nemandi í Birtu getur tekið þátt í hefðbundnu skólastarfi fær hann að vera þátttakandi í bekk með jafnöldrum sínum.

Stoðdeildin Birta er því hluti af starfsemi Álftamýrarskóla og fylgir skóladagatali skólans sem og þeim uppákomum og verkefnum sem allt skólasamfélagið tekur þátt í.

Þegar umsókn hefur borist um skólavist í Birtu er boðað til inntökufundar en hann sitja deildarstjóri Birtu, umsjónakennari, málastjóri frá Reykjavíkurborg forráðamenn og nemandi, auk umsjónarmanns frá frístundaheimili og svo túlkur.

Í Birtu stoðdeild er farið eftir móttökuáætlun þar sem forráðamönnum eru veittar upplýsingar um skólastarfið á eins myndrænan og einfaldan hátt og mögulegt er.

Strax er lagt upp með að fundað verði aftur eftir um 4 vikur frá inntökufundi.

Stoðdeildin leggur áherslu á samstarf við foreldra og býður upp á samveru með foreldrum og börnum á tveggja vikna fresti.

Þá er einnig mikið lagt upp úr að nemendur eigi kost á að tengjast starfi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar og  íþróttastarfi. Í góðri samvinnu við félagsmiðstöðina er eldri nemendum fylgt í frístundir eins og knattspyrnu eða handbolta hafi þau áhuga á að taka þátt í slíku. Með aðstoð starfmanns frístundaheimilis er lagt upp úr að kenna nemendum á strætisvagnaleiðir svo að þeir geti auðveldlega ferðast á milli heimilis og frístunda.

Við Birtu starfa núna einn deildarstjóri, einn kennari, einn uppeldismenntaður starfsmaður og einn stuðningsfulltrúi.