Skip to content

Að byrja í 1. bekk Álftamýrarskóla

Að byrja í grunnskóla

Hér má finna upplýsingar um skólabyrjun frá Reykjavíkurborg.

Álftamýrarskóli er í góðri samvinnu við leikskóla hverfisins, Álftaborg og Múlaborg. Nemendur leikskólanna koma í heimsóknir í Álftamýrarskóla veturinn áður en þeir hefja skólagöngu í grunnskóla. Þeir nemendur sem hafa stundað nám í leikskólum hverfisins fá að kynnast umhverfi grunnskólans og þekkja það þegar þeir mæta með foreldrum sínum að hausti og eru að byrja í 1. bekk.

Skólasetning haustið 2022 er 22. ágúst en nemendur í 1. bekk eru boðaðir í samtal með foreldrum/forráðamönnum sínum til umsjónarkennara þann 22. eða 23. ágúst. Umsjónarkennari hefur samband við foreldra/forráðamenn símleiðis og gefur upp tíma fyrir samtalið. Kennsla skv. stundaskrá hefst hjá 1. bekk miðvikudaginn 24. ágúst.

Grunnskólar Reykjavíkurborgar skaffa nemendum sínum öll skólagögn og því þurfa nemendur ekki að koma með námsgögn í skólann. Þeir þurfa aðeins að koma með hollt morgunnesti og vatnsbrúsa og íþrótta/sundföt þá daga sem það á við. Mikilvægt er að nemendur séu einnig með aukaföt í töskunni og að þeir séu klæddir eftir veðri.

Umsjónarkennarar afhenda stundatöflur í samtali við foreldra/forráðamenn og nemendur í haustviðtali og benda þá foreldrum á hvernig hægt er að sækja stundatöflur á Námfús sem er okkar námsumsjónarkerfi. Foreldrar geta farið inn á namfus.is og sótt um lykilorð til þess að komast inn í kerfið. Ef það koma upp vandamál við það er auðvelt að hafa samband við skrifstofu skólans og fá aðstoð.

Nemendur í 1. bekk mæta alla daga í skólann kl. 8:30, þá er hringt inn og mikilvægt að nemendur séu þá mættir í skólann. Stundvísi er eitt af grunngildum í skólastarfi og mikilvægt að foreldrar aðstoði börn sín við að tileinka sér stundvísi frá upphafi. Að mæta of seint truflar það starf sem þegar er hafið og nemendum líður alla jafna ekki vel ef þeir eru að mæta ítrekað of seint í skólann. Í fyrsta bekk er lögð megin áhersla á Byrjendalæsi.

Byrjendalæsi

Skólinn vinnur samkvæmt aðferðum Byrjendalæsis í læsiskennslu í 1.-3. bekk. Kennsluaðferðin hefur verið mótuð og þróuð við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Gengið er út frá því börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýtir undir ímyndunaraflið, hvetur þau til gagnrýninnar hugsunar og gefur þeim færi á að mynda merkingabærar tengingar við eigið líf. Því er margs konar gæðatexti lagður til grundvallar lestrarkennslunni og hann nýttur sem efniviður í vinnu með stafi og hljóð, sem og vinnu með orðaforða, skilning og ritun af ýmsu tagi.

Grunnstoðir Byrjendalæsis eru:

  • Lestur, ritun, tal og hlustun eru samofnir þættir og unnið er með þá á heildstæðan hátt.
  • Merkingabær viðfangsefni sem byggja á gæðatexta.
  • Markviss samvinna og samskipti nemenda í námi.
  • Einstaklingsmiðun í kennslu, stigskiptur stuðningur við nám.
  • Markviss kennsla aðferða sem styðja við lesskilning og fjölbreytta ritun.
  • Nám án aðgreiningar, einstaklingsþörfum mætt innan nemendahópsins.

Nánar um Byrjendalæsi

Einnig er unnið með ýmis verkefni tengd félagsfærni, tölum og talnaskilningi í stærðfræði, ýmsum verkefnum í samfélags- og náttúrufræði sem samþætt eru læsiskennslunni og kennsluaðferðir eru hafðar sem fjölbreyttastar. Nánar um námið.

Nemendur í 1. bekk fara í list- og verkgreinar og eru þær kenndar í lotum, tvær á hvorri önn. Íþróttir eru tvisvar í viku en hvor bekkur fær eina önn í sundi. Sund er kennt í Laugardalslaug og fá nemendur fylgd starfsmanna skólans í sundrútunni.

Á haustin eru kynningar fyrir foreldra á skólasetningar degi. 1. bekkur er þar undanskilinn því þeir nemendur mæta í samtal við umsjónarkennara sem veitir hverri fjölskyldu upplýsingar um skólastarfið. Í október er svo foreldra- og nemendadagur þar sem foreldrum gefst tækifæri til þess að hitta umsjónarkennara, fara yfir skólabyrjunina og setja fram markmið til vors, slík samtöl eru svo aftur í febrúar en þá er staðan tekin og markmið endurskoðuð. Sjá nánar á skóladagatali.

Skráning og uppsögn í hádegismat og frístund er í gegnum Rafræna Reykjavík. Foreldrar sjá um þá skráningu. Matseðla vikunnar er að finna á heimasíðu skólans. Frístundaheimili nemenda í 1.-4. bekk er Álftabær, nánar um starfsemina.

Nánari upplýsingar um skólastarfið má finna á heimasíðu skólans, í skólanámskrá og starfsáætlun Álftamýrarskóla.

Ef foreldrar óska eftir frekari upplýsingum þá er um að gera að hafa samband við skrifstofu skólans.

Verið hjartanlega velkomin í Álftamýrarskóla!