Skip to content

Uppeldi til ábyrgðar

Í Álftamýrarskóla er uppeldistefnan Uppeldi til ábyrgðar lögð til grundvallar í skólastarfinu.

Hvað er uppeldi til ábyrgðar (e. Restitution)?

Uppeldi til ábyrgðar er hugmyndafræði, aðferð og leið til að ýta undir:

  • jákvæð samskipti
  • sjálfstjórn og sjálfsaga
  • ábyrgð á eigin orðum og gerðum
  • að læra af mistökum í samskiptum
  • að þekkja styrkleika sína

Álftamýrarskóli hóf innleiðingu stefnunnar árið 2015. Allt starfsfólk tók þátt í innleiðingunni, sótti námskeið hérlendis og erlendis, ásamt því að vinna í þróunarhópum innan skólans. Síðan þá höfum við sótt okkur fyrirlestra sem hafa verið hluti af starfsþróunaráætlun skólans. Allt nýtt starfsfólk fær kynningu á stefnunni og lesefni til þess að komast sem best inn í hugmyndafræðina.

Skólinn leggur áherslu á eftirfarandi þætti úr hugmyndafræðinni:

Stutt inngrip/spurningar: Við temjum okkur að tala við aðra eins og við viljum að talað sé við okkur. Það skiptir máli hvernig hlutir eru sagðir og því lærum við stutt inngrip í formi spurninga eða fullyrðinga til að skapa notalegt andrúmsloft t.d Hvað áttu að vera að gera núna?; Hvað get ég gert til að hjálpa þér?; Er í lagi með það sem þú ert að gera núna?

Hlutverk nemenda og kennara: Á hverju hausti eru hlutverk nemenda og kennara skilgreind í bekkjunum þannig allir viti hvers er ætlast til af þeim.

Grunnþarfirnar: Nemendur kynnast eigin þörfum og annarra og skilja að hegðun stjórnast af þörfunum okkar. Nauðsynlegt er að læra að koma til móts við okkar eigin þarfir án þess að gera lítið úr þörfum annarra. Þarfirnar eru öryggi, að tilheyra, áhrifavald, gleði og frelsi. 

Bekkjarsáttmáli/vinnustaðasáttmáli: Hvernig viljum við að lífsgildin í bekknum/vinnustaðnum okkar komi fram? Á hvernig vinnustað vil ég vinna? Hvernig manneskjur viljum við vera? Umræður um gildi sem skipta máli og bekkurinn/starfsmannahópurinn kemur sér saman um sáttmála. Sáttmálinn hjálpar til við að skapa umhverfi þar sem nemendur finni sig örugga í hópnum.

Finna má upplýsingasíðu skólans fyrir kennara hér að neðan.