Allir í skólann 4. maí

Kæru foreldrar.

Við viljum byrja á að óska ykkur öllum gleðilegs sumars.
Eftir dimma og langa vetrardaga með margvíslegum áskorunum er það afar ánægjulegt að samfélag okkar hefji nú vegferðina út úr þeim höftum og takmörkunum sem Covid-19 veiran hefur haft í för með sér undanfarnar vikur. Það segir nú sína sögu um mikilvægi skóla- og frístundastarfs sú áhersla sem hefur verið á að hafa skóla- og frístundastarf opið allan tímann, þó með takmörkunum væri.
Sérstaklega gleðilegt er því að eitt fyrsta skrefið á þeirri leið að létta á höftum er að skólarnir og frístundastarfið munu nú hefja hefðbundna starfsemi sína að nýju.

Í auglýsingu frá stjórnvöldum, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, segir að frá 4. maí verði hægt að halda óskertri vistun og kennslu í skólum sem og starfsemi dagforeldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og annarri lögbundinni þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Skóla- og frístundastarf mun því færast í hefðbundið horf frá og með 4. maí. Í ljósi þess að fjarlægðar- og fjöldatakmörk eiga þó enn við um starfsfólk og foreldra auk þess sem áfram þarf að sinna viðbótarverkefnum sem snúa að sóttvörnum, teljum við mikilvægt að koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

– Almenn kennsla hefst samkvæmt stundaskrá 4. maí. Þetta á við um allar list- og verkgreinar, íþróttir og sund og bóklega kennslu. Nokkrir grunnskólar munu þó hafa skipulagsdag þann dag.
– Frá og með 4. maí verður starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva hefðbundin.
– Frá og með 4. maí falla forgangslistar almannavarna vegna starfa foreldra í framlínuþjónustu úr gildi og börn þeirra fá sömu þjónustu í skóla- og frístundastarfi og önnur börn.
– Börn sem eru í skilgreindum áhættuhópum vegna Covid-19 haldi sig heima ef ráðleggingar læknis eru á þann veg.
– Hafi börn kvef- eða flensueinkenni eiga þau ekki að koma í skóla- eða frístundastarf.
– Ung börn upp að u.þ.b. 7 ára aldri sem ekki geta skilið eða virt fjarlægðarmörk í samskiptum komi ekki í skóla- og frístundastarf ef einhver á heimili þeirra er í sóttkví.
– Foreldrar koma ekki inn í grunnskóla og frístundaheimili nema nauðsynlegt sé.
– Viðburðir í skóla- og frístundastarfi verða án þátttöku foreldra s.s. vordagar, skólaslit eða aðrir viðburðir sem hafa verið í hefðbundnu skóla- og frístundastarfi áður með þátttöku foreldra.
– Móttaka fyrir nýja nemendahópa í grunnskóla sem krefst þátttöku foreldra getur ekki farið fram á þessu vori.
– Fundir skóla með einstaka foreldrum eru heimilir í þar til skilgreindum rýmum ef hægt er að fylgja viðmiðum um smitgát.
– Ef brýnar ástæður eru til geta foreldrar sótt um leyfi fyrir börn sín frá skólasókn. Slíkar beiðnir skulu vera skriflegar og þar staðfesta foreldrar að þeir beri fulla ábyrgð á námi nemenda á meðan leyfi varir. Leyfisbeiðnir eru lagðar fram í nemendaverndarráði. Ef leyfi er samþykkt hefur umsjónarkennari samband við nemanda og foreldra 2-3 sinnum í viku til að fylgjast með líðan og framgangi náms.
– Áfram skal gera ráð fyrir viðbótarþrifum og sprittun í skóla- og frístundastarfi.
– Áfram skal gætt hreinlætis í allri umgengni um húsnæði og í samskiptum.
– Fullorðnir skulu halda 2 metra fjarlægð sín á milli eins og aðstæður leyfa og ekki er heimilt að fleiri en 50 fullorðnir komi saman í sama rými.

Með von um bjarta og gleðiríka skóla- og frístundadaga framundan.
Kær kveðja,

Soffía Vagnsdóttir
skrifstofustjóri fagskrifstofu grunnskóla

Soffía Pálsdóttir
skrifstofustjóri fagskrifstofu frístundamála